Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 65/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 65/2024

Miðvikudaginn 10. apríl 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. janúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til kæranda í janúar 2024.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2023, var kæranda tilkynnt um tillögu stofnunarinnar um tekjuáætlun ársins 2024. Kærandi gerði athugasemd við tillöguna 7. desember 2023. Kærandi fékk greiddan ellilífeyri 1. janúar 2024 frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við tekjuforsendur sem fram komu í tekjuáætlun stofnunarinnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. janúar 2024. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. mars 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingstofnunar ríkisins um að lækka greiðslur til kæranda þann 1. janúar 2024, byggða á svokallaðri tekjuáætlun. Kærandi hafi sent Tryggingastofnun bréf og óskað eftir svari við því hvort stofnunin hefði einhverjar lagalegar heimildir til að gera slíka áætlun fram í tímann og á hverju þessi niðurstaða sé byggð sem sé í sumum tilfellum augljóslega bull. Ekkert í lögum leggi þá skyldu á kæranda að gera einhverja „tekjuáætlun“ ár fram í tímann sem augljóslega yrði aldrei annað en ágiskun.

Kærandi krefjist þess að Tryggingastofnun greiði henni 4,9% hækkun eins og kveðið sé á um í fjárlögum sem hún hafi átt að fá greitt 1. janúar 2024.

Kærandi hafi sent Tryggingastofnun bréf, dags. 20. desember 2023, sem hafi ekki verið svarað og eiginmaður kæranda hafi skilið það svo í símtali að bréfinu yrði ekki svarað.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé niðurstaða útreiknings tekjutengdra greiðslna janúarmánaðar 2024.

Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í III. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 21. og 22. gr. laganna sé kveðið á um tekjutengingu ellilífeyris og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi greiðslna.

Samkvæmt 21. gr. laganna skuli fullur ellilífeyrir vera 3.998.328 kr. á ári, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 1411/2023 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2024. Fjárhæð fulls ellilífeyris skuli samkvæmt ákvæðinu lækka um 45% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 22. gr., uns lífeyririnn falli niður.

Í 22. gr. laganna segi að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í 3. mgr. 22. gr. laganna segi að við útreikning fulls ellilífeyris skuli lífeyrisþegi hafa almennt frítekjumark sem nemi 300.000 kr. á ári. Þá segi að lífeyrisþegi skuli hafa sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna sem nemi 2.400.000 kr. á ári.

Í 4. mgr. 22. gr. segi svo að tekjur maka lífeyrisþega hafi ekki áhrif á útreikning á fjárhæð ellilífeyris. Fjármagnstekjur skuli þó, sbr. 11. tölul. 2. gr., skiptast til helminga milli hjóna við útreikning lífeyris. Skipti þá ekki máli hvort þeirra sé eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða.

Í 33. gr. laganna sé fjallað um útreikning og endurreikning greiðslna. Þar segi í 1. mgr. að til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum almanaksárs. Auk þess segi að áætlun um tekjuupplýsingar skuli byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið sé um í 47. og 48. gr.

Í 1. mgr. 47. gr. laganna segi að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá segi að skylt sé að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Í 2. mgr. segi að ákvæði 1. mgr. eigi einnig við um maka umsækjanda eða greiðsluþega eftir því sem við geti átt.

Í 1. mgr. 48. gr. segi að Tryggingastofnun sé heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og greiðslur hjá lífeyrissjóðum, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis þegar það eigi við með rafrænum hætti eða á annan hátt. Í 2. mgr. segi að þegar um hjón sé að ræða sé Tryggingastofnun heimilt að afla upplýsinga um tekjur maka og greiðslur til hans hjá framangreindum aðilum ef þær gætu haft áhrif á fjárhæð bóta. Telji umsækjandi, greiðsluþegi eða maki upplýsingar frá þessum aðilum ekki réttar segi í 3. mgr. að hann skuli leggja fram gögn því til staðfestingar.

Kærandi hafi þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun fyrir janúarmánuð 2024.

Kæranda hafi verið send tillaga að tekjuáætlun fyrir árið 2024 með tveimur bréfum, dags. 5. desember 2023. Áætlað hafi verið að kærandi kæmi til með að hafa 634.708 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 699.627 í fjármagnstekjur á árinu 2024. Í bréfunum komi fram að forsendur fyrir tillögu að tekjuáætlun væru skattframtal 2023, upplýsingar úr staðgreiðsluskrá, fyrirliggjandi tekjuáætlun og almennar verðlagsbreytingar. Í bréfunum hafi kæranda verið bent á að hægt væri að breyta tekjuáætluninni en ef engar athugasemdir væru gerðar við tillöguna yrðu greiðslur til hennar reiknaðar samkvæmt henni. Kæranda hafi einnig verið bent á að það væri á hennar ábyrgð að tekjuáætlunin væri rétt og að mikilvægt væri að upplýsa stofnunina um allar breytingar á tekjum eða aðstæðum.

Maki kæranda hafi gert eftirfarandi athugasemdir við tillöguna 7. desember 2023:

„Tekju áætlunin frá TR varðandi B og A er röng og getur ekki staðist, hún er ágiskun út í loftið.Undirrituð hafna allri áætluninni og ásklja sér allan rétt, ef fara á eftir henni.Ekki er hægt að gera ágiskun um laun eða tekjur á næsta ári ,hvorki getur TR gert það né undirrituð,til þess er óvissan of mkil.Undirrituð samþykkja ekki skilmála Tryggingastofnunar Ríkisins,þótt nauðsynlegt sé að haka við það til að geta skilað þessari athugasemd.“

Kærandi hafi hins vegar ekki gert breytingar á áætluðum tekjum ársins 2024 og hafi hún því fengið greiddar tekjutengdar greiðslur sínar í janúar 2024 á grundvelli tillögunnar.

Að frádregnu almennu frítekjumarki sem kveðið sé á um í sömu grein og helmingi samanlagðra fjármagnstekna hennar og maka hennar séu áætlaðar tekjur kæranda á árinu 2024 samtals 730.645 kr. Fjárhæð fulls ellilífeyris lækki um 45% af samanlögðum tekjum kæranda eða um 328.790 kr. Fullur ellilífeyrir kæranda á árinu 2024 að teknu tilliti til tekna sé því 3.669.538 kr. Greiðsla ellilífeyris til kæranda í janúar hafi því verið 305.795 kr.

Greiðslur ellilífeyris séu tekjutengdar og skuli inntar af hendi fyrir fram fyrsta dag hvers mánaðar. Vegna þess séu til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar lagðar áætlaðar tekjur mánaðarins. Í stað þess að í hverjum mánuði sé óskað eftir áætlun næsta mánaðar sé í lögum um almannatryggingar gert ráð fyrir því að óskað sé eftir tekjuupplýsingum frá greiðsluþegum á ársgrundvelli og einn tólfti af áætluðum tekjum ársins lagður til grundvallar útreikningi mánaðarlegra greiðslna. Greiðsluþegum sé rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um fjárhæð greiðslna, meðal annars upplýsingar um tekjur. Auk þess sé Tryggingastofnun heimilt að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega hjá tilteknum stofnunum.

Vegna þess að tekjuáætlanir séu gerðar á ársgrundvelli útbúi Tryggingastofnun í lok hvers árs tillögu að tekjuáætlun næsta árs. Slíkar tillögur séu byggðar á áreiðanlegum upplýsingum frá stofnunum og greiðsluþega sjálfum um tekjur hans á líðandi ári sem og almennum verðlagsbreytingum. Greiðsluþegum sé heimilt og séu hvattir til að breyta tillögunni í samræmi við þá áætlun sem þeir telji rétta. Geri þeir það ekki verði þeim greitt á grundvelli tillögunnar þegar nýtt ár muni ganga í garð.

Kærandi hafi ekki gert neinar breytingar á tillögu Tryggingastofnunar að tekjuáætlun hennar fyrir árið 2024.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um útreikning og greiðslu tekjutengdra greiðslna. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 1. janúar 2023 um útreikning og greiðslu ellilífeyris til kæranda fyrir janúarmánuð 2024 verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til kæranda fyrir janúar 2024.

Í 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er fjallað um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega og í 1. og 2. mgr. 33. gr. laganna segir um útreikning og endurreikning greiðslna:

„Til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar skal leggja 1/ 12 af áætluðum tekjum almanaksárs. Áætlun um tekjuupplýsingar skal byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 47. og 48. gr. Ef um nýja umsókn er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í 47. og 48. gr. og réttur til greiðslna reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað er frá þeim tíma sem greiðsluréttur stofnaðist.

Tryggingastofnun skal upplýsa umsækjanda eða greiðsluþega um forsendur útreiknings greiðslna og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Þá skal stofnunin hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem hún aflar úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið er um í 48. gr.

Um ellilífeyri er fjallað í 3. kafla laga um almannatryggingar. Í 21. gr. er fjallað um fjárhæð ellilífeyris og þar segir meðal annars að fjárhæð lífeyris skuli lækka um 45% af eigin tekjum lífeyrisþega, sbr. 22. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Samkvæmt 5. mgr. 22. gr. laganna hafa tekjur maka lífeyrisþega ekki áhrif á útreikning á fjárhæð ellilífeyris en fjármagnstekjur, sbr. 11. tölul. 2. gr., skiptast til helminga milli hjóna við útreikning lífeyris. Skiptir ekki máli hvort þeirra er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.

Í 62. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um árlega breytingu fjárhæða. Á grundvelli 63. gr., sbr. 62. gr. laga um almannatryggingar, var sett reglugerð nr. 1411/2023 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2024. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að fullur ellilífeyrir skuli vera 333.194 kr. á mánuði á árinu 2024. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 690/2023 um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2023 var ellilífeyrir 315.525 kr. á mánuði fyrir tímabilið 1. júlí til 31. desember á árinu 2023.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. desember 2023, var kæranda tilkynnt um tekjuætlun ársins 2024 þar sem gert var ráð fyrir 634.708 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 699.627 kr. í fjármagnstekjur sameiginlegar með maka. Þann 7. desember 2023 gerði maki kærandi athugasemdir við að Tryggingastofnun skyldi áætla tekjur hennar fyrir árið 2024 og sagði áætlunin ranga en breytti henni þó ekki.

Í máli þessu snýst ágreiningurinn um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til kæranda. Kærandi er ósátt við að Tryggingastofnun hafi áætlað tekjur hennar fyrir árið 2024 og að greiðslur til hennar hafi ekki hækkað í samræmi við fjárlög um áramótin. Í 1. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar segir að til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum almanaksárs. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að Tryggingastofnun hafi verið skylt lögum samkvæmt að útbúa tekjuáætlun fyrir kæranda vegna ársins 2024. Af gögnum málsins verður ráðið að Tryggingastofnun hafi tekið mið af upplýsingum frá Skattinum um fyrri tekjur kæranda við þá áætlun. Þá liggur fyrir að kæranda var veittur kostur á að breyta tekjuáætluninni en hún gerði það ekki. Einnig liggur og fyrir að greiðslur óskerts ellilífeyris hækkuðu 1. janúar 2024 um 5,6% eða úr 315.525 kr. á mánuði í 333.194 kr. og að greiðslur til kæranda í janúar 2024 tóku mið af þeirri hækkun. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við ákvörðun Tryggingastofnunar um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til kæranda í janúar 2024. Úrskurðarnefndin telur þó tilefni til að benda kæranda á að telji hún tekjuáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2024 ranga geti hún breytt áætluninni. Þá bendir úrskurðarnefndin á að greiðslur ársins 2024 verða endurreiknaðar eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. 

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til kæranda í janúar 2024 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð ellilífeyrisgreiðslna til A, í janúar 2024, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum